Rafhleðslustöðvar settar upp í Mosfellsbæ

10/07/2017
Mosfellsbær og Íslenska Gámafélagið hafa undirritað samning til þriggja ára um að Íslenska gámafélagið setji upp og reki þrjár hleðslustöðvar sem geta hlaðið allar gerðir rafbíla á Íslandi. Fyrst sinn er áætluð staðsetning stöðva við Íþróttamiðstöð Lágafelli, Íþróttamiðstöð Varmá og Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.

Uppsetning rafhleðslustöðvanna fer af stað innan mánaðar og áætluð verklok eru í janúar á næsta ári. Stöðvarnar verða merktar Mosfellsbæ og Ísorku, sem er vörumerki í eigu Íslenska gámafélagsins. Þær verða snúrulausar eru af gerðinni Circontrol eVolve og eru 2 x 22kW AC.

,,Við höfum lagt mikla vinnu og metnað í að bjóða einungis hágæða búnað og frábærar lausnir til að miðla upplýsingum til rafbíla eigenda í gegnum Ísorku,“ segir Sigurður Ástgeirsson, verkefnastjóri orkulausna hjá Íslenska gámafélaginu og lýsir yfir ánægju sinni með frumkvæði Mosfellsbæjar við að koma til móts við rafbílaeigendur. ,,Þetta eru fyrstu skref í upphafi byltingar í orkuskipti í samgöngum,“ bætir hann við.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar er ánægður með samstarfið. „Mosfellsbær hefur lagt áherslu á umhverfismál og verið í fararbroddi þegar kemur að náttúruvernd og sjálfbærni. Við viljum taka virkan þátt í orkuskiptum í samgöngum. Markmiðið er að íbúum Mosfellsbæjar verði gert kleift að velja umhverfisvænan samgöngumáta meðal annars með því að auðvelda aðgengi að hleðslustöðvum.“

 

Haukur Björnsson, forstjóri Íslenska gámafélagsins og Jóhanna Björg Hansen, framkvæmdastjóri umhverfissviðs Mosfellsbæjar undirrita samninginn.

Mynd: Sigurður Ástgeirsson 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Til baka