Mosfellsbær – heilsueflandi samfélag gegn ofbeldi

06/10/2017
Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar var haldinn þann 18. september síðastliðinn í sal FMOS, framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Yfirskrift dagsins að þessu sinni var „Mosfellsbær - Heilsueflandi samfélag gegn ofbeldi“

Fjallað var um ofbeldi og birtingarmyndir þess í víðu samhengi. Að umræðu dagsins komu aðilar sem unnið hafa með einum eða öðrum hætti að því að sporna gegn ofbeldi og að opna á umræðuna um málefnið.

Þorbjörg I. Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður fjallaði um birtingarmyndir ofbeldis og hvernig þær eru ávallt að þróast og breytast í samræmi við breytingar í samfélaginu. Þá lýsti hún reynslu brotaþola frá sjónarhóli þeirra sem hún hefur sinnt réttargæslu fyrir sem lögmaður. Þorbjörg benti sérstaklega á að þolendur virðast oftar en ekki upplifa, að þeim sé ekki trúað, hvorki af þeim sem annast rannsókn brotanna né fólki almennt, þótt sönnunargögn liggi fyrir. Einnig hafa dómar í málaflokknum því miður oft verið um sýknu jafnvel þótt sönnun hafi að mati þolanda verið nægileg vegna þess að gerandinn er alltaf látinn njóta vafans auk þess sem skorti á skilning á eðli og afleiðingum ofbeldis í dómskerfinu. 

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Sigríður Björk Guðjónsdóttir fór yfir áherslur þeirra málaflokka tengt ofbeldi sem lögreglan hefur unnið með frá árinu 2014. Þar vakti sérstaka athygli sú mikla aukning í fjölda mála þar sem tilkynnt er yn ofbeldi til lögreglunnar á þessu tímabili. Áherslur lögreglunnar tengjast ekki bara kynferðisbrotum, nauðgunum eða öðrum ofbeldisbrotum, heldur leggur lögregluembættið mikla áherslu á aðkomu að heimilisofbeldismálum. Markmið þess er að takmarka líkur á endurtekningu slíkra ofbelda sem og að veita brotaþolum og gerendum þann stuðning sem hægt er, í þeim tilgangi að fyrirbyggja að brotin endurtaki sig. Lögreglan er í góðu samstarfi við félagsþjónustu sveitarfélaga, barnaverndaryfirvöld og heilsugæsluna vegna verkefnisins.

Einnig voru flutt erindi þar sem starfssemi Stígamóta, Kvennaathvarfsins og Bjarkarhlíðar var kynnt, en allir þessir staðir eru athvarf fyrir þá sem hafa upplifað ofbeldi og gegna þeir lykilatriði í að veita þolendum stuðning. Sérstaklega er hugað að börnum í starfsemi þeirra, en rannsóknir sýna að upplifun barna af ofbeldi og áhrif þess á líðan þeirra er vanmetin og getur haft víðtæk áhrif að líðan þeirra og þroska til frambúðar. 

 
Jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar árið 2017 hlaut FemMos; Feminístafélag Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. FemMos hefur unnið markvisst að því að jafna rétt kynjanna með því að sýna frumkvæði og kveikja umræðu tengt kynbundnu ofbeldi, kynjamismunun og að vekja máls og auka fræðslu í málaflokknum. Félagið stóð fyrir fjölmörgum áhugaverðum viðburðum, meðal annars má nefna söfnun til styrktar Stígamótum undir yfirskriftinni „Ég er á móti kynferðisofbeldi“. Í þeirri söfnun skapaðist samtal og umræða milli nemenda á öllum aldri um birtingarmynd kynbundins ofbeldis og viðbrögð gegn því. Haldin voru reglubundin kaffihúsakvöld þar sem kynjafræðikennsla, kynjakvóti, kynbundið ofbeldi og kynjamismunun voru rædd. Ennfremur stóð FemMos fyrir jafnréttisviku þar sem boðið var upp á ýmsa fræðslu og umræðuhópa um jafnrétti í víðum skilningi.

Með viðurkenningunni vill Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar hvetja íbúa og starfsmenn Mosfellsbæjar til að fylgja góðu fordæmi FemMos í þeirri von að fylgja eftir vitundarvakningu og auka umræðu um jafnrétti kynjanna.

 

Myndir Mosfellingur 28. september

Erindi flutt á jafnréttisdegi
Bjarkarhlíð - fyrir þolendur ofbeldis
Kynjabundið ofbeldi - Jafnréttisdagur í Mosfellsbæ
Kvennaathvarfið - Tölum um ofbeldi
Stígamót fyrir karla
Birtingarmynd ofbeldis

Til baka

Myndir með frétt