Jón Kalman valinn Mosfellingur ársins af bæjarblaðinu Mosfellingi

11/01/2018
Rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson hefur verið útnefndur Mosfellingur ársins 2017 af bæjarblaðinu Mosfellingi.
Hann gaf út skáldsöguna Saga Ástu fyrir jólin og fékk hún hvern fimm stjörnu dóminn á fætur öðrum.

Jón Kalmann er einn af fremstu rithöfundum þjóðarinnar og hefur margsinnis verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs auk þess að hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin. Á árinu var hann jafnframt orðaður við sjálf Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.
Jón Kalman býr með eiginkonu sinni, börnum og hundi í Svöluhöfða og hefur fjölskyldan búið í Mosfellsbæ í rúm 20 ár.

„Maður er bara glaður að fólki finnst ástæða til þess að velja mig,“ segir Jón Kalman um útnefningu Mosfellings. „Þá kannski hefur maður gert eitthvað gott.“ -
Fyrsta bók Jóns Kalmans kom út árið 1988 og á hann því 30 ára rithöfundaafmæli á árinu. Hann hefur gefið út 3 ljóðabækur og 12 skáldsögur.

Í kvöld verður Himnaríki og helvíti frumsýnt í Borgarleikhúsinu. Sýningin byggir á þríleik Jóns Kalmans, bókunum Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins – einu umtalaðasta stórvirki íslenskra bókmennta á síðari tímum.

---

Mynd: Raggi Óla
Til baka