Fjölmenni við vígslu kastalans í Ævintýragarðinum.

16/05/2018

Fjöldi fólks mætti til vígslu á nýjum kastala sem staðsettur er í Ævintýragarðinum laugardaginn 12.maí síðastliðinn í blíðskaparveðri. Kastalinn er gjöf til bæjarbúa frá bæjarstjórn Mosfellsbæjar í tilefni 30 ára afmæli bæjarins. Haraldur Sverrisson bæjarstjóri bauð gesti velkomna ásamt Bjarka Bjarnasyni sem vígði kastalann formlega. Börn frá leikskólanum Reykjakoti sungu. Boðið var upp á kennslu í frisbígolfi við góðar undirtektir gesta. Formlegri vígsludagskrá lauk með boði á grilluðum pylsum og drykkjum.

Við kastalann er veglegt klifurnet sem er vinsælt meðal yngri kynslóðarinnar. Bekkir og borð eru einnig staðsett við leiktækin þar sem hægt er að koma með nesti og njóta.
Við garðinn er afgirt hundasvæði þar sem hægt er að taka „besta vininn“ með fjölskyldunni og hann notið útiverunnar með sínum.

Það má með sanni segja að kastalinn henti vel í náttúrulegu umhverfi eins og í Ævintýragarðinum en uppsetning kastalans er eitt af nokkrum skrefum við uppbyggingu á garðinum. Kastalinn er frá Eibe leiktækjalínunni en þau leiktæki bjóða upp á fjölbreytt safn kastala, klifurtækja og annarra útivistar- og ævintýraleiktækja fyrir börn á öllum aldri. Auðvelt verður því að tengja kastalann við fleiri leiktæki í sömu leiktækjalínu í framtíðinni við uppbyggingu garðsins. Má því segja að þessi nýjasta viðbót við Ævintýragarðinn er í alla staði vel heppnuð viðbót við ört vaxandi útivistarsvæði fjölskyldunnar.

Ævintýragarðurinn
Ævintýragarðurinn sem staðsettur er í Ullarnesbrekkum er fyrir alla fjölskylduna hlaðinn spennandi leiktækjum sem skátafélagið Mosverjar settu upp. Þar er um að ræða ýmis klifur- og þrautatæki ásamt veglegum hlaupaketti sem hægt er að sveifla sér í. Haustið 2013 voru sett upp handsmíðuð leiktæki sem Ásgarður handverkstæði gaf Mosfellsbæ af tilefni 20 ára afmæli þeirra síðarnefndu. Fræðsluskilti um Ævintýragarðinn stendur við innkomuna að garðinum að sunnanverðu frá íþróttasvæðinu við Varmá (næg bílastæði við íþróttamiðstöðina).

Ætistígur
Mikil uppbygging stíga og gróðurs hefur átt sér stað og liggur malbikaður og upplýstur aðalstígur í gegnum allan garðinn, frá íþróttasvæðinu við Varmá að Leirvogstungu, með rósatorgi í miðjunni og göngubrúm við hvorn enda. Út frá aðalstígnum liggur minni malarstígur, svonefndur ætistígur, sem liggur meðfram hinum ýmsu ætiplöntum sem plantað hefur verið meðfram honum, m.a. fjölmörgum tegundum berjarunna.

Frisbígolfvöllur
Níu holu frisbígolfvöllur er í Ævintýragarðinum en frisbígolf er leikið á svipaðan hátt og venjulegt golf, en í stað golfkylfa og golfbolta nota leikmenn frisbídiska.

1500 fermetra hundagerði í Ullarnesbrekkum
Hundagerðið er skemmtileg viðbót við útivistarmöguleika Ævintýragarðsins við fjölbreytt barnaleiksvæðið, göngustíga og frisbígolfvöll sem er opinn almenningi, svo eitthvað sé nefnt.


Til baka

Myndir með frétt