Álafosskvos

 

Eftirfarandi þjónustu er að finna í Álafosskvos:

Álafossbúðin, ull og gjafavörur
Álafossvegi 23
Sími: 566 6303


Ásgarður handverkstæði
Sími 567 1734
asgardur@asgardur.is

Sundlaugin studio
Álafossvegur 22
Fyrsta sundlaug landsins sem var vígð árið 1933 hefur fengið nýtt hlutverk upptökustúdíós en hljómsveitin Sigur Rós breytti húsnæðinu í æfinga- og upptökusal. 

Palli hnífasmiður
Álafossvegi 29
Sími 899 6903
Opið virka daga kl. 9:00-18:00, laugardaga 9:00-16:00 og eftir samkomulagi

Ullarverksmiðjan á Álafossi

Verksmiðjuhjólin tóku að snúast við Álafoss vorið 1896 en áður höfðu nokkur ullarvinnsluverkstæði verið sett upp annarsstaðar á landinu. Björn Þorláksson  átti frumkvæðið að byggingu  verksmiðjunnar. Hann kynnti sér ullarvinnslu í Noregi veturinn 1894-1895 og eftir heimkomuna flutti hann að bænum Varmá sem stóð þar sem síðar risu skólamannvirki sveitarfélagsins.  

Í Mosfellsveit sá Björn mikla möguleika til ullarvinnslu. Varmá, sem rann ylvolg til sjávar, var hentug til ullarþvotta, hún fraus ekki og brekkan við Álafoss skapaði hentugan halla til að knýja tóvinnuvélarnar með vatnsafli úr ánni. Björn stíflaði Varmá ofan við fossinn og leiddi vatnið í sveru röri niður í verksmiðjuhúsið neðan brekkunnar.

Straumhvörf urðu í starfsemi Álafossverksmiðjunnar þegar Sigurjón Pétursson eignaðist hlut í henni árið 1917 og hóf meiri umsvif í íslenskum ullariðnaði en áður höfðu þekkst. Auk ullarvinnslunnar hóf Sigurjón netagerð á Álafossi árið 1919. Árið 1920 hélt Sigurjón á Álafossi sýningu í Reykjavík og sýndi framleiðsluvörur sínar: sápu, sem hann framleiddi í Reykjavík, en veiðarfæri og ullarvörur frá Álafossi: dúka, prjónavörur, lopa og band. Eftir því sem næst verður komist var hér um fyrstu iðnsýningu á Íslandi að ræða.

Þegar Sigurjón Pétursson hóf störf að Álafossi tók hann stax að huga að uppbyggingu íþróttalífs á staðnum en hann var sjálfur mikill íþróttagarpur og meðal annars annálaður glímukappi. Árið 1921 gekkst hann fyrir svonefndu Álafosshlaupi  í fyrsta skipti og gaf hann veglegan verðlaunabikar. Sigurjón taldi sund vera allra meina bót og efldi óspart sundkennslu og sundiðkun á Álafossi. Hann sá fljótt hvaða möguleikar leyndust í ylvolgri Varmánni ofan við stífluna hjá fossinum og lét útbúa þar búningsaðstöðu. Þessi sundskáli var vígður12. júní 1927 og þann sama dag var keppt í Álafosshlaupinu, að þessu sinni hófst það í Reykjavík og endaði á Álafossi þar sem svonefndur fánadagur var haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti.

Nafngift og dagsetning hátíðarhaldanna voru ekki valin af tilviljun. Hinn 12. júní 1913 höfðu danskir varðskipsmenn afskipti af ungum Íslendingi, Einari Péturssyni bróður Sigurjóns sem sigldi á kappróðrarbáti um Reykjavíkurhöfn. Ástæðan var bláhvítur fáni sem prýddi skut bátsins en Íslendingar börðust þá fyrir því að fá eigin þjóðfána og hafði bláhvíti fáninn komið til álita sem slíkur.

Á sjöunda áratugnum var tekið að þrengja verulega að  starfseminni á upphaflega byggingarsvæðinu og á árunum 1961-1964 var  ráðist í að byggja stórt verksmiðjuhús á melnum ofan við Álafosskvosina. Hafist var handa við að reisa nýja spunaverksmiðju árið 1961 og var henni lokið árið 1963. Byggingin var  2.800 fermetrar að  stærð og gekk undir nafninu  Nýja verksmiðjan, þar sem Ístex er nú til húsa. Ullarflokkun, þvottur og litun fór áfram fram í kvosinni en ullinni var síðan blásið með heyblásurum upp í Nýju verksmiðjuna þar sem hún var fullunnin.

Framleiðsla værðarvoða hófst eftir 1960 og einnig urðu hespulopi og loðband miklar nýjungar og lyftistöng fyrir verksmiðjureksturinn á 7. áratugnum. Hespulopinn kom í framleiðslu í mars 1967 undir verkstjórn Guðjóns Hjartarsonar og varð til þess að lopapeysur urðu mjög útbreiddar og til á hverju heimili landsins og einnig var lopinn settur á markað erlendis.

Á sjöunda áratugnum voru miklar fjárfestingar hjá fyrirtækinu í húsa- og vélakosti. Aukin framleiðsla á teppabandi í nýju verksmiðjunni átti að standa undir þessari fjárfestingu. Það gekk ekki eftir sem skyldi, fyrirtækið lenti í vanskilum, einkum við Framkvæmdasjóð og árið 1968 yfirtók sjóðurinn reksturinn. Þegar Framkvæmdasjóður tók við rekstri verksmiðjunnar hafði hún verið í eigu sömu fjölskyldunnar í hálfa öld.

Heimildir: Úr bók Bjarka Bjarnasonar og Magnúsar Guðmundssonar Mosfellsbær saga byggðar í 1100 ár.

Eftir að allri vinnslu á ull lauk í gömlu verksmiðjunum  í kringum 1985 voru húseignirnar seldar til einstaklinga,  sem allir  hafa  lagt  metnað sinn í að endurbyggja húsin, en  þó til annarra nota en áður var.  

Stekkjarflöt við ÁlafosskvosLystigarðurinn Stekkjarflöt er leikvöllur í nálægð við Álafosskvos meðfram Varmá í Mosfellsbæ. Þar er stórt svæði með leiktækjum sem eru löguð að náttúrunni, þrautir og annað skemmtilegt að skátastíl fyrir eldri börnin. Tjörn með skemmtilegri höfn prýðir mitt svæðið þar sem ungir ofurhugar geta komið með litla mótorbáta og reynt fimi sína.
Fallegt fuglalíf má einnig sjá á tjörninni og má þá sjá til gamans og yndisauka fólk að gefa öndunum með unga sína brauð.

Góð aðstaða er til þess að grilla góðgæti á góðum degi og hafa margir lagt leið sína á Stekkjarflötina í "lautarferð" með gott nesti og teppi og átt ljúfan dag.

Tilvalið er að fara í gömlu góðu leikina á túninu eins og eina króna, vink-vink í pottinn, snerta þrjá hluti, Dimmalimm og hlaup'í skarðið í bland við nýja.

Í miðjum garði trónir fallegt útilistaverk Hús tímans - hús skáldsins eftir Magnús Tómasson. Verkið bar sigur úr býtum í verðlaunasamkeppni sem menningarmálanefnd Mosfellsbæjar efndi til árið 2000.

Heiti verksins vísar í titil á verki eftir Halldór Laxness, heiðursborgara Mosfellsbæjar. Verkið er sex metra hár turn reistur á grunnfleti, sem er merki Mosfellsbæjar. Upp af grunnfletinum rís turn úr málmi sem minnir á gotneska boga og ef horft er á verkið ofan frá er merki bæjarins greinanlegt. Inni í turninum hangir stór steinn í keðju sem nemur við sexhyrnt form sem stendur á grunnfletinum. 

Í túninu heima, bæjarhátíð MosfellsbæjarÍ túninu heima.
Bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima, er haldin síðustu helgina í ágúst ár hvert. Hátíðin er sannkölluð fjölskylduhátíð sem stendur í þrjá daga og geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Í kvosinni er haldinn glæsilegur m
arkaður með mikið úrval af handverki, ullarvörur, snyrti og heilsuvörur, skart, ferskmeti og ýmis matvæli ásamt mörgu spennandi sem vert er að skoða.