Starfshópur um lýðræðismál

Þjóðfélagsumræðan undanfarin misseri hefur í auknum mæli beinst að lýðræðisumbótum hvers konar. Rætt hefur verið um völd og ábyrgð kjörinna fulltrúa og rétt íbúa til að taka þátt í ákvarðanaferlinu og ákvörðunum. Eitt af stefnumálum nær allra flokka í framboði fyrir nýafstaðnar sveitarstjórnarskosningar í Mosfellsbæ var að setja skuli sérstaka lýðræðisstefnu sveitarfélagsins. Í henni yrði m.a. einnig settar reglur um íbúakosningar.

Með virku íbúalýðræði er hægt að ná betri sátt um markmið, stefnu og framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins með því að virkja íbúa í ákvörðunartökuferlinu og stefnumótun hvers konar og hvetja þá til að taka þátt í mótun nærumhverfis síns í samvinnu við sveitarfélagið.

Til að stýra þessu verki hefur verið ákveðið að settur verði upp sérstakur tímabundinn starfshópur.  Í þessum hópi eigi sæti fulltrúar frá öllum framboðum í bæjarstjórn auk formanns sem verður bæjarstjóri.  Ekki verður um launagreiðslur að ræða fyrir setu í hópnum.

Hlutverk hópsins: Vinna drög að nýrri lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar og reglum um íbúakosningar í Mosfellsbæ

Helstu verkefni:

  1. Kortleggja hvað þegar hefur verið gert hjá sveitarfélaginu í sambandi við lýðræðismál, til dæmis íbúaþing, skólaþing og þess háttar.
  2. Vinna drög að lýðræðisstefnu sveitarfélagsins
  3. Vinna drög að reglum um íbúakosningar
  4. Leggja fram tillögur að innleiðingu lýðræðisstefnu

Miðað er við að starfshópurinn taki til starfa í september og skili niðurstöðum til bæjarráðs fyrir 1. apríl 2011. 

Í nefndinni eiga sæti Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Anna Sigríður Guðnadóttir, fulltrúi S-lista, Herdís Sigurjónsdóttir, fulltrúi D-lista, Jón Jósef Bjarnason, fulltrúi Íbúahreyfingarinnar og Karl Tómasson, fulltrúi V-lista. Starfsmenn nefndarinnar eru Sigríður Indriðadóttir mannauðsstjóri og Stefán Ómar Jónsson bæjarritari.

Netfang nefndarinnar er lydraedisnefnd[hja]mos.is