Skólavist og skipting skólasvæða

02.03.2011

Reglur um skólavist og skiptingu skólasvæða

1. gr.
Nemendur í grunnskólum Mosfellsbæjar sækja skóla eftir búsetu og skal þá taka mið af eftirfarandi skiptingu skólasvæða:

  • Íbúar Mosfellsbæjar sem búa vestan við Arnartanga, Bjargartanga, Borgartanga, og Grundartanga eru á skólasvæði Lágafellsskóla svo og íbúar í Hlíðartúni.*
  • Íbúar Mosfellsbæjar sem búa austan Arnartanga, Bjargartanga, Borgartanga og Grundartanga, að þeim götum meðtöldum, tilheyra skólasvæði Varmárskóla.*

*sjá kort sem sýnir skiptingu skólasvæða grunnskóla Mosfellsbæjar og  upplýsingar um skólaakstur á heimasíðu Mosfellsbæjar

Innritun sex ára nemenda fer fram í mars og skulu foreldrar sækja um skóla í samræmi við ofangreinda búsetu.  Innritun fer fram í gegnum  íbúagátt Mosfellsbæjar. Foreldrar bera ábyrgð á að innrita börn sín í skóla.

2. gr.
Um Krikaskóla gildir að börn sem hefja leikskólagöngu í Krikaskóla geta lokið fyrstu 4 grunnskólaárunum þar.  Að öllu jöfnu er  gert ráð fyrir því að nemendur Krikaskóla flytjist í Varmárskóla að lokinni skólagöngu þar.  Að öðru leyti gildir ofangreind skilgreining á skiptingu skólasvæða hvað þau varðar.  Hægt er að bætast inn í grunnskólahóp Krikaskóla ef aðstæður leyfa hvað varðar fjölda barna í árgangi hverju sinni, sbr. 3. gr.

3. gr
Foreldrar/forráðamenn geta óskað eftir því að nemandi stundi nám í öðrum grunnskóla innan sveitarfélagsins en búseta gerir ráð fyrir. Skal um það sótt til skólastjóra viðkomandi skóla fyrir 1. maí ár hvert og skulu skólastjórar leitast við að koma til móts við þær óskir. Þegar skólastjórar innrita fleiri nemendur í árgang en tilheyra skólasvæðinu, skulu þeir taka mið af húsnæði og fjárhagsáætlun skólans þegar þeir samþykkja skólavist nemenda. Ákvörðun skólastjóra um skólavist nemenda er stjórnsýsluákvörðun og skal ágreiningi um afgreiðslu vísað til Skólaskrifstofu Mosfellsbæjar.

4.gr
Foreldrar / forráðamenn eru ábyrgir fyrir flutningi barna sinna til og frá skóla ef þau sækja skóla utan síns skólasvæðis.

5. gr.
Ef nemandi er innritaður í annan skóla en tilheyrir hans skólasvæði færist fjármagn til viðtökuskóla í samræmi við reglur um kvótasetningu í grunnskólum sbr. samþykkt frá 120. fundi fræðslunefndar þann 22. október 2003 og 121. fundi nefndarinnar þann 5. nóvember 2003. Á nýju fjárhagsári færist nemandinn inn í fjárhagsáætlun viðtökuskólans. Greiðslur sem að fylgja nemandanum áður en hann færist inn í fjárhagsáætlun viðkomandi skóla miðast við viðmiðunargjaldskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga sem gefin er út í upphafi hvers skólaárs. Þurfi nemandi á sérkennslu og/eða nýbúakennslu að halda skal um það semja sérstaklega áður en hann hefur skólagöngu í öðrum skóla en heimaskóla á miðju fjárhagsári.

Til baka