Tómstundafélög

Spennandi afþreying er fyrir börn og unglinga í Mosfellsbæ. Fjölmörg tómstundafélög eru starfandi í bæjarfélaginu og eru nokkur nefnd hér: 

Bókasafn Mosfellsbæjar- sumarlestur,   Sundnámskeið Kobba Krókódíls og Hönnu hafmeyju í Varmárlaug,     Handboltaskóli Aftureldingar, Golfklúbburinn Kjölur, Reiðskóli  Hestamenntar, Reiðskólinn Vindhóll,   Leikjanámskeið ÍTÓM, Knattspyrnuskóli Aftureldingar, Drekaævintýri Taekwondo deildar UMFA,   Ævintýranámskeið hjá skátafélaginu Mosverja, Sundnámskeið fyrir börn 5 ára og eldri í Lágafellslaug, Leikgleði - leiklistarnámskeið hjá leikfélagi Mosfellssveitar, Barnagolfnámskeið - Golfklúbburin GOB, Hreysti námskeið Eldingar, Körfuboltanámskeið hjá Aftureldingu og margt fleira. 
Listaskóli Mosfellsbæjar samanstendur af Leikfélagi Mosfellssveitar, tónlistardeildar, Myndlistarskóli Mosfellsbæjar auk Skólahljómsveitar. Myndlistarskólinn býður upp á metnaðarfull myndlistarnám fyrir alla aldurshópa. Boðið er upp á byrjendanámskeið fyrir fullorðna, þar sem lögð er áhersla á teikningu, litafræði, myndbyggingu og frumatriði málunar. Einnig eru í boði framhaldsnámskeið í málun fyrir þá sem eru lengra komnir. Námskeiðin eru 44 kennslustundir og fer kennsla fram á kvöldin. Kennarar á námskeiðum eru listmálararnir Anna Gunnlaugsdóttir, Pétur Gautur og Soffía Sæmundsdóttir.

Tónlistardeild Listaskólans stendur fullorðnum jafnframt til boða. Þar fer fram kennsla á hin ýmsu hljóðfæri fyrir byrjendur sem lengra komna.


Flugklúbbur Mosfellsbæjar er með einstaka aðstöðu á flugvellinum að Tungubökkum enda er það ekki að ástæðulausu að oft er talað um að þar sé grasrót einkaflugs á Íslandi.Á Tungubökkum eru sjö flugskýli sem hafa að geyma tugi einstakra flugvéla og einnig er þar mjög gott klúbbhús sem notað er sem kaffistofa sem og samkomuhús til skemmtana og fundarhalda. Félagslíf klúbbsins samanstendur af ýmsum uppákomum árið um kring.

Frá lokum maí þar til í byrjun september sjá eigendur flugvéla á flugvellinum um kaffi og meðlæti á hverju fimmtudagskvöldi. Þar koma félagsmenn sama, ræða um lífsins gagn og nauðsynjar og fljúga ef veður leyfir. Allir eru velkomnir á þessi kaffikvöld, jafnvel þó menn séu ekki félagar í klúbbnum. Íbúar Mosfellsbæjar hafa verið duglegir við að heimsækja okkur á fimmtudagskvöldum á sumrin. Á veturna eru kaffikvöldin einnig haldin á fimmtudagskvöldum.

Golfklúbbur Mosfellsbæjar
Í desember 2014 samþykktu félagsfundir Golfklúbbs Bakkakots og Golfklúbbs Kjalar að sameinast undir merkjum Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Nýr golfklúbbur hlaut skammstöfunina GM og skartar tveimur vallarsvæðum. Hlíðavöllur er staðsetur í Mosfellsbæ og er glæsilegur 18 holu golfvöllur við ströndina og óviðjafnanlegu útsýni yfir Faxaflóann. Bakkakot í Mosfellsdal er skemmtilegur 9 holu golfvöllur í yndislegri náttúru Mosfellsdals.
Golfklúbbur Mosfellsbæjar leggur metnað sinn í að viðhalda arfleið stofnklúbba sinna og efla allan viðgang golfs í Mosfellsbæ. Ennfremur er lagt mikið upp úr því að vera golfklúbbur fyrir alla fjölskyldinu. Öflugt barna- og unglingastarf er í gangi allt árið um kring. Félagsstarf eldri kylfinga er virkt í klúbbnum ásamt félagsstarfi fyrir almennan kylfing. Öflugt vetrarstarf fer fram á vegum Golfklúbbs Mosfellsbæjar þar sem félagsmenn leika á vetrarmótum utandyra eða pútta innandyra í æfingaaðstöðu klúbbsins á Blikastaðanesi.
Golfklúbbur Mosfellsbæjar undirbýr byggingu nýrrar Íþróttamiðstöðvar sem mun rísa miðsvæðis við Hlíðavöll sem mun hýsa allar skrifstofur og starfsemi klúbbsins við Hlíðavöll. Byggingin mun verða mikil lyftistöng fyrir allt félagsstarf klúbbsins þegar hún verður risin sem áætlað er að verði sumarið 2016.