Teikningar / Kortasjá

Ný kortasjá – aukin þjónusta

Mosfellsbær hefur tekið í notkun nýja kortasjá. Í kortasjánni eru aðgengilegar margvíslegar upplýsingar um fasteignir, umhverfi og veitur. Markmiðið með kortasjánni er að bæta enn frekar þjónustuna við íbúa og aðra viðskiptavini. Þarna eru aðgengilegar upplýsingar allan sólarhringinn.

Samhliða er einnig ábendingakerfi ef íbúar hafa orðið varir við eitthvað í nærumhverfi sínu sem þarfnast lagfæringar eða skoðunar hjá starfsmönnum Mosfellsbæjar má senda ábendingu með staðsetningu og hnitum af þeirri ábendingu sem þarfnast lagfæringar eða athugunar. Hægt er að senda mynd ef þess er þörf á mos[hjá]mos.is með tilvísun í ábendingu.

Teikningar fasteigna verða aðgengilegar milliliðalaust í gegnum kortasjá. Þá geta eigendur fasteigna og/eða aðrir áhugasamir sótt teikningar húsa en það er til dæmis mikið gert í fasteignaviðskiptum. Þess má geta að teikningar fasteigna eru opinberar upplýsingar sem allir geta óskað eftir og sveitarfélaginu er skylt að afhenda. Vonast er til þess að nýja kortasjáin mælist vel fyrir bæði þjónustu og aðgengi að gögnum hjá Mosfellsbæ.

Teikningar / kortasjá

Alla aðal- og séruppdrætti af húsum má nálgast á Kortasjá/Teikningaskrá Mosfellsbæjar. Hjá þjónustuveri Mosfellsbæjar, Þverholti 2, 2. hæð, eru teikningar fáanlegar upp í A3 (29,7 cm x 42 cm) samkvæmt gjaldskrá en ef óskað er eftir teikningum í raunstærð eru teikningar sendar viðkomandi í tölvupósti sem getur látið prentstofur afgreiða slík mál.

Aðal- og séruppdrættir, svo sem lagna- og burðaþolsteikningar af opinberum byggingum, s.s. fjármálastofnanir, verslanir, skólar og skrifstofuhúsnæði eru ekki aðgengilegir á teikningavef en afrit af þeim er hægt að fá í þjónstuveri eftir samkomulagi. Í sumum tilvikum má einnig búast við að ekki séu til teikningar af eldri byggingum í Mosfellsbæ. Nánari upplýsingar í síma 525 6700.

Hvar finn ég teikningar af húsum í Mosfellsbæ?

Til að fá teikningar af húsum er farið beint inn á teikningavef Mosfellsbæjar. Á loftmynd er mögulegt að þysja inn á kortasjá (skrunhjól á mús) eða fara í leitarslá (efst til vinstri) og slá inn heimilisfang og húsnúmer. Gulrauðir punktar (teikningaþekja) yfir loftmynd sýna að teikningar eru til í teikningaskrá Mosfellsbæjar, viðeigandi skjal valið og hleðst þá teikning niður á viðkomandi tæki á.tif formati tilbúið til frekari vinnslu eða útprentunar.

Athugið að heimilisfang getur innihaldið fleiri en eitt númer, til dæmis í fjölbýlishúsi eða raðhúsi, þá þarf að slá inn frá - til (til dæmis Háholt 13 - 15). Einnig er hægt að fara í vallista hægra megin á síðu, velja þá þekju sem óskað er eftir eða fara í ítarval með því að ýta á +, sem sýnir ítarlegri þekjuval og sjá nánari valkost á korti það sem valið var til dæmis landnúmer, vatnslagnir eða lýsingu til að mynda hvar má finna strætibiðstöð svo eitthvað sé nefnt.

Teikningar í fullri upplausn

Hjá þjónustuveri Mosfellsbæjar eru teikningar fáanlegar upp í stærð A3 samkvæmt gjaldskrá. Hægt er að óska eftir teikningum í raunstærð á netfangið mos[hjá]mos.is að kostnaðarlausu.

Teikningaafgreiðsla er opin virka daga frá kl. 8.00 - 16.00. Fyrirspurnir er hægt að senda á netfangið mos[hjá]mos.is eða með því að hafa samband í síma 525 6700.

Hvar finn ég legu lagna í lóð, þe. fráveitu, vatns og raflagna í Mosfellsbæ?

Í vallista hægra megin á síðu er valin sú þekja sem óskað er eftir að skoða, fráveitu-, vatns-, hita- eða raflögn. Einnig er hægt að virkja ítarval með því að ýta á +, sem sýnir ítarlegri þekjuval eins og td. Brunna, loka ofl. og sjá nánari valkost á korti það sem valið var

Varðandi aðgang almennings að teikningum

Öll gögn í vörslu embættis byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar, sem hlotið hafa formlega afgreiðslu, eru opinber skjöl. Sem slík eru þau aðgengileg almenningi. Þar á meðal eru teikningar að mannvirkjum innan borgarinnar. Í 6. grein upplýsingalaga Íslands er fjallað um takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna. Þar kemur fram í 1. tl. 1. mgr. að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda hafi þau að geyma upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál. Almenningi er því ekki veittur aðgangur að teikningum af húsnæði sem eru þess eðlis. Íbúðarhús teljast ekki á meðal þeirra og eru teikningar af þeim því aðgengilegar almenningi, sem fyrr segir, í pappírsformi og rafrænt.