Þjónustustöð

Hlutverk Þjónustustöðvar Mosfellsbæjar er að sjá um alla almenna þjónustu við bæjarbúa á sviði tækni- og umhverfismála, svo sem snjóruðning, viðhald og rekstur gatna, holræsa, veitna, umferðarmannvirkja og opinna svæða, auk þess að aðstoða garðyrkjudeild og vinnuskóla. Þjónustustöð sér einnig um viðhald á fasteignum bæjarins.

Undir starfsemi Þjónustustöðvar fellur allur rekstur stærri tækja og bíla bæjarins.
 
Þar er tekið á móti tilkynningum allan sólarhringinn um bilanir í vatns- og hitalögnum auk annarra neyðartilvika.
 
STAÐSETNING: 
Þjónustustöð er til húsa að Völuteigi 15.
Síminn er 525 6700 
Neyðarnúmer veitna er 566 8450 
Netfang: mos[hja]mos.is

Við öll heimili eru tvenns konar sorptunnur, grá fyrir almennt sorp og plast og blá fyrir pappírsúrgang, tímarit, fernur, eggjabakka og bylgjupappa.

HEIMILISSORP

Verktakar sjá um sorphirðu á heimilissorpi í Mosfellsbæ. Meðhöndlun sorpsins er á vegum Sorpu bs.  Heimilissorp er sótt að jafnaði á tíu daga fresti og pappírstunnur eru tæmdar þriðju hverja viku.

Orkutunnan er gamla gráa tunnan. Í hana má setja allan heimilisúrgang og plast í plastpoka.

Engar rafhlöður, spilliefni eða raftæki mega fara í tunnurnar. Þeim skal skilað á næstu endurvinnslustöð.
Í blátunnurnar má setja allan pappírs og pappaúrgang, svo sem dagblöð, tímarit, fernur, sléttan pappa, eggjabakka, skrifstofupappír og bylgjupappa. Tunnurnar eru tæmdar á um 21 daga fresti og efnið flutt til endurvinnslu.

Sléttur pappír er til dæmis í umbúðum utan af morgunkorni, ýmsum skyndiréttum, kexi, þvottaefni og þess háttar. Bylgjupappi er til að mynda pitsukassar og pappakassar.

Svo ekki komi ólykt við geymslu skal skola fernurnar vel áður en þeim er skilað. Mikilvægt er að fjarlægja allar matarleifar eða plastumbúðir sem kunna að leynast í pappaumbúðum.

Sjá nánar um Bláu tunnuna 

FLOKKUN Á PLASTI
Íbúar geta þá sett allt plast frá sér í plastpoka og fleygt honum í gráu sorptunnuna.
Sérstakur búnaður í móttökustöð Sorpu bs. sér síðan um að flokka plastpokana frá öðru sorpi.

Hér á síðu Sorpu er að finna góðan fróðleik um flokkun á plasti ásamt kynningarmyndbandi af ferlinu

VÍÐTÆKT GRENNDARGÁMAKERFI ER Í MOSFELLSBÆ
Í dag eru grenndargámar á fjórum stöðum í bænum, við Langatanga, Bogatanga, Dælustöðvarveg og Háholt, og þar má skila flokkuðum úrgangi í þrjá aðskilda flokka:

  • Grænn gámur sem tekur við plastumbúðum,
  • Dósasöfnunargámur fyrir endurvinnanlegar drykkjarumbúðir.
  • Gler

Útvíkkun og endurskoðun á grenndargámakerfinu er stöðugt í gangi.


NÝJAR SORPTUNNUR

Sótt er um sorptunnur, lok og tappa í síma 525 6700 eða senda beiðni á netfangið: mos[hja]mos.is

SORPSTAMPAR

Þjónustustöð sér um tæmingu og viðhald á sorpstömpum sem staðsettir eru á opnum svæðum og við gönguleiðir í bænum. Um 80 sorpstampar eru tæmdir og yfirfærðir í hverri viku.

Hægt er að senda ábendingu á netfangið:
mos[hja]mos.is

UMHVERFI

Mosfellsbær hefur metnaðarfulla stefnu í umhverfismálum og skipar umhverfið stóran sess í lífi bæjarbúa. Ýmsar leiðir eru til flokkunar sorps í Mosfellsbæ sem sjá má nánar hér..

BÆKLINGAR

Íslenska Gámafélagið

Snjómokstur og hálkueyðing

Mosfellsbær leitast við að veita skilvirka og hagkvæma vetrarþjónustu sem felst í snjóhreinsun og hálkueyðingu gatna og gönguleiða í bænum. 

Fylgst er með veðurspám og þegar von er á mikilli snjókomu, skafrenningi eða ófærð eru starfsmenn Þjónustustöðvar og verktakar á vegum bæjarins kallaðir út. Við vinnuna er fylgt ákveðinni snjómokstursáætlun þar sem strætóleiðir, stofnbrautir og fjölfarnar safngötur eru í 1. forgangi. Göngustígar sem tengja saman hverfin og liggja til mikilvægra áfangastaða eru í forgangi svo og bílaplön á stofnanalóðum.

Sandur í Þjónustustöð 
Hjá Þjónustustöð bæjarins við Völuteig 15 geta íbúar fengið sand til að bera á plön og stéttir við heimahús þegar aðstæður eru þannig. Aðgengi er opið að sandi við Þjónustustöð og er bæjarbúum velkomið að taka sand sem til þarf (muna að taka með sér poka eða ílát). 

Saltkassar í Mosfellsbæ

Þjónustustöð hefur komið fyrir saltkössum víðsvegar um Mosfellsbæ þar á meðal við alla leik- og grunnskóla bæjarins. Mosfellsbær hvetur íbúa til að nýta sér þessa þjónustu þegar hálka myndast á götum, gangstéttum og innkeyrslum.


 

Garðyrkjudeild Mosfellsbæjar 
sér um öll almenn garðyrkjustörf og alla umhirðu gróðurs í bæjarlandinu, auk viðhalds og umhirðu á stofnanalóðum bæjarins. 

Nýframkvæmdir á vegum garðyrkjudeildar taka helst til opinna svæða og frágangs göngustíga og gangstéttir. Sláttur á vegum bæjarins er að stórum hluta í höndum verktaka.

Að jafnaði er garðyrkjudeildin með einn heilsársstarfsmann en yfir sumartímann fjölgar starfsmönnum verulega og sjá þeir þá um garðslátt, viðhaldsvinnu, gróðursetningu og allt sem kemur að fegrun bæjarins.

Garðyrkjudeild vinnur einnig náið með vinnuskóla bæjarins og sér um að útvega honum verkefni. 

Umhverfiseftirlit
Þjónustustöð sér um umhverfiseftirlit í hverfum Mosfellsbæjar. Hver gata er metin fyrir sig, skráð niður þau atriði sem eru ábótavant, svo sem brotnir kantsteinar, skökk skilti, ástand göngustíga, holur í malbiki og önnur atriði sem betur mega fara. Starfsmenn þjónustustöðvar vinna í kjölfarið í endurbótum á umhverfinu.

Gróður á lóðarmörkum

 

 

 

 

 

 

 

 

Nauðsynlegt er að taka tillit til nágranna þegar kemur að gróðursetningum og viðhaldi gróðurs á lóðarmörkum. Hár gróður getur skyggt á útsýni nágranna og valdið ónæði sé viðhaldi hans ábótavant. Gróður sem vex út fyrir lóðarmörk að gangstéttum og stígum bæjarins getur hindrað umferð gangandi vegfarenda og hjólreiðamanna og jafnvel skapað hættu. Einnig getur gróður þannig skyggt á umferðarmerki, götumerkingar og lýsingu. Æskilegt er að íbúar gæti vel að því að gróður skagi ekki langt út fyrir lóðarmörk og ef ástæða þykir til er bæjaryfirvöldum heimilt að klippa og fjarlægja þann gróður á kostnað lóðarhafa.


Í byggingarreglugerð er skýrt kveðið á um að lóðarhafa sé skylt að halda vexti trjá og runna innan lóðarmarka. Ekki má planta hávöxnum trjátegundum nær lóðarmörkum aðliggjandi lóða en 4,0 metra og við lóðarmörk má hæð þeirra ekki verða meiri en 1,8 metrar, nema með samþykki nágranna. Trjágróður sem liggur að götu, gangstétt eða opnu svæði má ná meiri hæð ef fyrir liggur samþykki veghaldara eða umráðaaðila viðkomandi svæðis.

Garðeigendur eru því hvattir til að klippa og snyrta allan gróður á lóðarmörkum og huga jafnframt að að garðinum öllum og næsta umhverfi.
GarðslátturHeppilegt getur verið að hefja grasslátt um miðjan maímánuð, en það er þó háð tíðarfari, en best er að góður vöxtur sé kominn í gras áður en slegið er.

Algengast er að slegið sé u.þ.b. á 3ja vikna fresti yfir sumarið.
Ekki skal slá niður í rótarháls, helst ekki meira en 1/3 af grashæð í einu og ráðleggt að fara varlega á vorin.
Þegar líður að hausti er ágætt að slá grasið ekki mjög snöggt.
Á þennan hátt fer grasið hærra inn í veturinn og þannig dregur úr líkum á frostskaða.
Slætti er venjulega lokið um miðjan september, en er þó háð tíðarfari.

GróðursetningÍ flestum tilfellum er besti tíminn til gróðursetninga á vorin og í byrjun sumars, þar sem plöntur geta verið viðkvæmari fyrir flutningi og útplöntun seinni hluta sumars (júlí til september).
Gott getur verið að vökva rætur, t.d. hnausinn eða pottinn, vel fyrir gróðursetningu. Sem dæmi má nefna að oft getur reynst vel að dýfa rótarhnausnum (í striga eða potti) í vatn þar til hann er gegnblautur.

Heppilegast er að planta trjám og runnum í sömu dýpt og þau stóðu áður, þannig að yfirborð hnaussins sé í sömu hæð og jarðvegsyfirborðið. Því næst þarf að fylla vel að rótunum með næringarríkri moldarblöndu og þjappa vel að rótarhnaus.

Nauðsynlegt er að vökva vel fyrstu vikurnar eftir útplöntun þannig að vatnið nái að bleyta jarðveginn um 20-30 cm niður fyrir yfirborðið. Gera má ráð fyrir að um 10-20 lítra af vatni þurfi á hverja meðalstóra plöntu.
TrjáfellingReglur um trjáfellingar geta verið breytilegar á milli sveitarfélaga. Í Mosfellsbæ ber mönnum skylda til að sækja um leyfi til að fella tré sem eru hærri en 8 metrar eða eldri en 60 ára. Mikilvægt er að sækja um tilskilin leyfi áður en hafist er handa.

Flestir geta fellt venjuleg garðtré, hafi þeir rétt verkfæri og fara rétt að hlutunum. Þó skal bent á að í vissum tilfellum er nauðsynlegt að fá fagmenn til verksins, t.d. þegar um hærri tré er að ræða eða ef aðstæður eru erfiðar.

Mögulegt er að fella tré á öllum árstímum, en þó getur verið heppilegra að fella lauftré fyrir eða eftir laufgun þegar umfang þeirra er minna. Eins getur verið gott að undirbúa fellingu alaskaaspar og tegunda sem mynda rótarskot með því að fletta berki af um 30 cm svæði umhverfis trjástofninn til að rjúfa flutning næringarefna til róta og draga þannig úr rótarskotum, og fella tréð að ári liðnu.

LimgerðisklippingNauðsynlegt getur verið að klippa limgerði til að móta lögun og þéttleika þess og fjarlægja skemmdar greinar. Sumar tegundir nægir að klippa einu sinni á ári, en aðrar tegundir getur þurft að klippa oftar.

Besti tíminn til að klippa limgerði er seinni hluti vetrar og fram á vor, og hægt að klippa fram á mitt sumar, en ágústmánuður og fram á haust er talin sísti tíminn til klippingar limgerðis.
Varnarefni / eitrunNauðsynlegt getur verið að verja gróður fyrir áföllum eða álagi vegna meindýra, svepps og illgresis.

Ýmis varnarefni eru notuð til þess, skordýraeitur er notað til þess að drepa trjámaðk og blaðlús í trjám og runnum, sveppalyf er notað til þess að til þess að verjast ryðsveppi og illgresiseyði má nota til eyðingar á illgresi í grasi, trjá- og runnabeðum.

Gæta þarf sérstakrar varúðar við notkun varnarefna, bæði með tilliti til umhverfisins og áhrifa á heilsu. Oft er um að ræða varasöm efni fyrir húð og augu, og geta valdið mengun í náttúrunni séu þau ekki rétt notuð.

Aðeins skal úða þær plöntur sem á því þurfa að halda, og alls ekki yfir opið vatn eða nálægt ám og vötnum. Varnarefni sem berast út í ár og vötn geta valdi neikvæðum áhrifum á lífríki fjarri þeim stað þar sem átti að nota þau og jafnver mengað grunnvatn.

Ráðlagt er að leita upplýsinga um varnarefni og notkun þeirra áður en þau eru notuð og einnig getur verið nauðsynlegt að leita til fagmanna þegar um sterkari efni er að ræða.
MatjurtargarðurBest er að velja garðstæði þar sem skjól er gott og sólríkt, mót suðri. Jarðvegur þarf að vera heppilegur til ræktunar, ekki of blautur eða grýttur, og nægilega djúpur til að rækta þar matjurtir. Heppilegt getur verið að bæta jarðveginn með jarðvegsbæti/moltu til að auka næringagildi hans.

Almenningi í Mosfellsbæ stendur til boða að leigja matjurtagarða hjá Mosfellsbæ yfir sumartímann. Matjurtagarðar bæjarins eru staðsettir austan Varmárskóla og í Skammadal.

Útleiga matjurtagarða bæjarins fer venjulega fram í maí og tekur þjónustuver Mosfellsbæjar við umsóknum.
Hitaveita Mosfellsbæjar var stofnuð árið 1943 og er eign Mosfellsbæjar, undir yfirstjórn bæjarstjórnar en rekstrarstjórn hennar er falin forstöðumanni tækni – og umhverfissviðs.
Veitusvæði hitaveitunnar er lögsagnarumdæmi Mosfellsbæjar og hefur hitaveitan einkarétt til dreifingar og sölu á heitu vatni á veitusvæði sínu.

Tilgangur hitaveitunnar er að afla, selja og veita heitu vatni um veitusvæði sitt og reka aðra þá starfsemi sem því tengist.

Veitudeild Mosfellsbæjar sér um allt almennt viðhald veitukerfis í bæjarlandinu.

Deildarstjóri eignadeildar: 
Þorsteinn Sigvaldason
Netfang: ths[hja]mos.is 

Fagstjóri veitna: 
Steinþór Gunnarsson
Gsm: 693-6707
Netfang: steinthor[hja]mos.is 
 

Deildarstjóri þjónustudeildar: 
Bjarni Ásgeirsson
Netfang: bjarni[hja]mos.is

Fagstjóri garðyrkju og skógræktar:
Heiða Ágústsdóttir
Netfang: heida[hja]mos.is

Verkefnastjóri garðyrkju
Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir
Netfang: ingibjorgasta[hja]mos.is

Hundaeftirlitsmaður:
Þjónustustöð Mosfellsbæjar
Netfang: hundaeftirlit[hja]mos.is

Dýraeftirlitsmaður: 
Haukur Níelsson
Sími: 566 8450
Netfang: haukur[hja]mos.is