Vel heppnaður fundur umhverfisnefndar

14/04/2018

Síðastliðið haust samþykkti umhverfisnefnd Mosfellsbæjar að hefja endurskoðun á umhverfisstefnu bæjarins með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Nefndin stóð fyrir opnum fundi í Framhaldsskóla Mosfellsbæjar þann 22. mars þar sem um 40 manns mættu til að ræða hugmyndir sínar og tillögur um stefnuna.

Í upphafi fundar hélt Vilborg Arna Gissurardóttir pólfari áhrifaríkt erindi um mikilvægi náttúruverndar og heilsueflandi samfélags. Að því loknu stýrði Sævar Kristinsson ráðgjafi hjá KPMG vinnuhópum þar sem íbúar settu fram hugmyndir um áherslur Mosfellsbæjar í málum eins og skógrækt, landgræðslu, vistvænum samgöngum, útivist, sorpmálum og náttúruvernd.
„Þessi opni fundur tókst einstaklega vel,“ segir Bjarki Bjarnason formaður umhverfisnefndar.
„Það er mjög mikilvægt að fá bæjarbúa beint að fundarborðinu því þessi málefni snerta okkur öll um leið og þau hafa merkingu og vægi á heimsvísu.

Nefndin mun funda fljótlega og halda áfram að móta stefnuna út frá þeim góðu
hugmyndum og ábendingum sem komu fram á fundinum.“

 

(Frétt/mynd: Mosfellingur 5. tbl.17. árg. 5. apríl 2018)

Til baka