Notendaráð Mosfellsbæjar og Kjósahrepps um málefni fatlaðs fólks

29.05.2017
SAMÞYKKT UM NOTENDARÁÐ MOSFELLSBÆJAR OG KJÓSARHREPPS
UM MÁLEFNI FATLAÐS FÓLKS

1. gr.
Markmið
Markmiðið með starfi notendaráðsins er að gera fötluðu fólki kleift að hafa áhrif á og taka þátt í skipulagi og framkvæmd þjónustu sem það varðar, svo og öðrum hagsmunamálum sínum á þjónustusvæði Mosfellsbæjar og Kjósarhrepps.

2. gr.
Hlutverk
Hlutverk notendaráðsins er einkum:

  •  Að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og hlutaðeigandi stofnanir þjónustusvæðisins um hug-myndafræði og stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks.
  • Að fylgjast með framkvæmd þjónustu við fatlað fólk á þjónustusvæðinu í samráði við not-endur hennar og talsmenn þeirra eða aðstandendur. Í því felst meðal annars að fjalla um ábendingar og tillögur þeirra sem í hlut eiga, þó ekki þær sem varða málefni einstaklinga.
  • Að koma á framfæri hugmyndum, tillögum og ábendingum um inntak og tilhögun þjónustu við fatlað fólk á þjónustusvæðinu.
3. gr.
Tilnefning og skipun

Notendaráðið skal skipað fimm manns og jafn mörgum til vara, fjórum frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks og einum frá fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar sem jafnframt er formaður ráðsins. Starfsmaður fjölskyldusviðs er starfsmaður ráðsins og ritar hann jafnframt fundargerðir þess.

 

Óskað skal eftir tilnefningum frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, tveimur fulltrúum frá hvorum samtökum og tveimur til vara.

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar skipar í ráðið að fengnum tilnefningum. Skipunartími er tvö ár í senn. Að því tímabili loknu skal á ný óskað tilnefninga frá ofangreindum samtökum. Seta í notendaráði er ólaunuð.

Á fyrsta fundi ráðsins skal fara fram kosning formanns. Ráðið skiptir síðan með sér verkum að öðru leyti og setur sér reglur um starfshætti, svo sem um fundarsköp og tíðni og boðun funda, eftir því sem ráðið telur þörf fyrir.


4. gr.
Fundir og verkefni

Mosfellsbær leggur notendaráðinu til fundaraðstöðu, tæknilega aðstoð á borð við prentun og ljósritun, sem og þá aðstoð sem felst í framlagi fulltrúa fjölskyldusviðs.

Ráðið kemur ábendingum sínum og tillögum á framfæri við stjórnvöld þjónustusvæðisins, t.d.
fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar, og eftir atvikum daglega stjórnendur þjónustunnar.

Ráðið tekur til umfjöllunar þau málefni sem fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar eða önnur stjórnvöld á þjónustusvæðinu, t.d. aðrar fagnefndir, bæjarráð eða bæjarstjórn Mosfellsbæjar, kunna að vísa til ráðsins til umsagnar eða ráðgjafar. Hlutaðeigandi aðilar geta þá kallað ráðið eða fulltrúa þess á sinn fund til frekari umfjöllunar.

Gert er ráð fyrir að fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar eigi fund með ráðinu að minnsta kosti
árlega. Þá er þess ennfremur vænst að ráðið leggi fram skýrslu um og kynni starf sitt.


Samþykkt á 239. fundi fjölskyldunefndar 22. janúar 2016.
Samþykkt á 664. fundi bæjarstjórnar 3. febrúar 2016

Til baka