Frístundaávísun

FrístundirMosfellsbær styrkir frístundaiðkun allra barna og unglinga á aldrinum 6-18 ára með lögheimili í Mosfellsbæ með fjárframlagi á móti kostnaði við frístundaiðkun að lágmarki upphæð 27.500,-kr. Markmið þessarar niðurgreiðslu er að hvetja börn og unglinga til að finna sér frístund sem hentar hverjum og einum.

Styrkurinn er afhentur í gegnum íbúagátt Mosfellsbæjar og geta foreldrar og forráðamenn því með rafrænum hætti greitt fyrir frístundaiðkun barna sinna. Tímabil styrkveitingar hefst 15. ágúst ár hvert til 31. maí árið eftir. 

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti í fjárhagsáætlun 2016 haustið 2015 að  frístundaávísun hækki sérstaklega fyrir barnmargar fjölskyldur. Frístundaávísun fyrir fyrsta barn verður eftir sem áður 27.500kr. en breytingin felur í sér að heildar upphæð frístundaávísunar hækkar um 25% fyrir annað barn og aftur um 25% við þriðja barn.  Þegar foreldri sækir um frístundaávísun á íbúagátt kemur hækkun á upphæð ávísunar sjálfkrafa fram eftir fjölda barna sem skráð eru með sama lögheimili hjá foreldri: 

  • Foreldri með 1 barn fær 27.500 á það barn.
  • Foreldri með 2 börn fær 30.937 á hvort barn.
  • Foreldri með 3 börn fær 34.375 á hvert barn.
  • Foreldri með 4 börn fær 36.093. á hvert barn.

Ef félag sem barn vill sækja námskeið hjá er ekki skráð í íbúagáttinni þarf viðkomandi félag að senda beiðni á fristundmos[hja]mos.is og sækja um að komast á listann, félög þurfa að uppfylla allar kröfur og samþykkja skilmála Mosfellsbæjar. Sjá samskiptareglur hér

Hvernig er frístundaávísunin notuð?
  1. Skráðu þig inn í Íbúagátt Mosfellsbæjar.
  2. Þar smellirðu á flipann "Frístundaávísun" efst á síðunni og færð upp umsóknareyðublað.
  3. Veldu barn til að birta lista yfir frístundastarf sem er í boði hjá sveitarfélaginu. (Barnið þarf að eiga lögheimili í Mosfellsbæ og hafa ekki þegar nýtt frístundaávísunina.)
  4. Veldu námskeið sem barnið ætlar að sækja. (Hægt er að skipta ávísuninni þannig að hún renni til tveggja félaga.)
  5. Staðfestu upphæð frístundaávísunar sem á að nýta og greiðslumöguleika. (Með staðfestingu sinni á frístundaávísun í gegnum Íbúagátt Mosfellsbæjar samþykkir forráðamaður barns að Mosfellsbær greiði völdu félagi eða félögum þá styrkfjárhæð sem tilgreind var við félagið.)
  6. Þegar umsóknarferlinu er lokið hefur barn verið skráð á viðkomandi námskeið og frístundaávísun verið ráðstafað.

Athugið varðandi frístundastarfs Mosfellsbæjar (frístundavistun, tónlistarskóli og skólahljómsveit):
Þegar ráðstafa á frístundaávísun til frístundastarfs Mosfellsbæjar skal velja upphæð frístundastyrks og greiðslumátan "millifærsla". Frístundaávísun rennur þá til móts við greiðsluseðil frá Mosfellsbæ. Upphæð greiðslu er ekki raunkostnaður frístundastarfs.


frístund - Hvað er í boði