Umhverfi

Mosfellsbær hefur metnaðarfulla stefnu í umhverfismálum og skipar umhverfið stóran sess í lífi bæjarbúa

Mosfellsbær er um 220 ferkílómetrar að stærð í útjaðri höfuðborgarsvæðisins. Skipulag tekur mið af fjölbreyttri og fallegri náttúru bæjarfélagsins. Hér eru víðáttumikil náttúruleg svæði og einstakir útivistarmöguleikar í skjóli fella, heiða, vatna og strandlengju. Mosfellsbær státar af talsverðri sérstöðu hvað snertir fjölbreytileika.  Bæjarfélagið samanstendur af þéttbýliskjarna við Leirvog þar sem boðið er uppá nauðsynlega þjónustu, auk víðáttumikillar sveitar, svo sem í Mosfellsdal. 

Mosfellingar kunna vel að meta umhverfi sitt og eru gönguleiðir góðar allt frá fjöru til fjalla og aðstaða til hreyfingar því afar fjölbreytileg frá náttúrunnar hendi. Náttúruperlur og sögulegar minjar eru víða í Mosfellsbæ, má þar nefna Tröllafoss, Helgufoss, Varmá, Mosfellskirkju og fornleifauppgröft við Hrísbrú í Mosfellsdal. 

Mosfellsbær hefur í gegnum árin markað sér metnaðarfullar stefnur um sjálfbært samfélag með virkri þátttöku í Staðardagskrá 21 með gerð stefnumótunar, framkvæmdaáætlunar og árlegs verkefnalista. Þar mátti sjá framtíðarsýn bæjarfélagsins um sjálfbært samfélag og helstu atriði sem leggja verður áherslu á til að markmið um sjálfbæra þróun megi fram að ganga. Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem sú þróun sem gerir okkur kleift að uppfylla þarfir okkar án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Í því felst að við skilum jörðinni af okkur ekki í verra ástandi til komandi kynslóða en við tókum við henni.

Mosfellsbær hlaut Staðardagskrárverðlaunin ári 2001 fyrir gott starf í þágu sjálfbærni. Mosfellsbær hefur einnig tekið þátt í ýmsum verkefnum um sjálfbærni. Þar má nefna þátttöku í norrænu samstarfsverkefni um sjálfbærni og uppbyggingu betri miðbæja og íbúalýðræði (Attractive Nordic Towns), sem hófst haustið 2017 og stendur til 2019.

Nú er Staðardagskrá 21 liðin undir lok á heimsvísu, en í staðin eru komin heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Opinn fundurNý umhverfisstefna
Mosfellsbær ákvað í lok árs 2017 að hefja vinnu við endurskoðun á nýrri umhverfisstefnu fyrir Mosfellsbæ. Lögð var áhersla á að umhverfisstefnan yrði unnin í góðu samráði við íbúa Mosfellsbæjar og endurspeglaði þau markmið um sjálfbæra þróun sem kæmu fram í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Vinna við nýja umhverfisstefnu hófst í ársbyrjun 2018 undir leiðsögn umhverfisnefndar í samstarfivið umhverfissvið Mosfellsbæjar.

Í þeirri vinnu var boðað til opins íbúafundar um umhverfismál í mars 2018 þar sem kallað var eftir áherslum íbúa varðandi umhverfismál og sjálfbærni í Mosfellsbæ. Sú vinna fór fram í vinnustofu undir handleiðslu ráðgjafa frá KPMG og tókst vel, og margar góðar hugmyndir komu þar fram. Unnið var með eftirfarandi áhersluflokka og fengu fundargestir það verkefni að setja fram sínar hugmyndir að markmiðum, mikilvægustu aðgerðum til að ná þeim markmiðum og hvað íbúar sjálfir gætu gert til að hrinda þeim markmiðum í framkvæmd:

 • opinn íbúafundurSkógrækt og landgræðsla
 • Vatnsvernd og náttúruvernd
 • Umhverfisfræðsla
 • Útivist og lýðheilsa
 • Mengun, hljóðvist, loftgæði og samgöngur
 • Endurvinnsla, neysla og græn innkaup

Reynt verður að taka tilliti til þeirra áherslna sem fram komu á opna íbúafundinum við gerð umhverfisstefnunnar.

Heimsmarkmið

Við gerð umhverfisstefnu Mosfellsbæjar verða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun höfð til hliðsjónar og þau verkefni sem falla undir þau. Í hverjum kafla er gerð sérstaklega grein fyrir því hvaða kafla heimsmarkmiðana er sérstaklega horft til.
Sérstaklega er horft til 11 kafla heimsmarkmiðana sem snúa að sjálfbærni sveitarfélaga, skipulagi þeirra og uppbyggingu, en einnig koma margir fleiri kaflar markmiðanna við sögu.

Umhverfisstefnan er nú í vinnslu.

 
Mosfellsbær - sjálfbært samfélag  (bæklingur / flettirit) 
 

Ýmsar leiðir eru til flokkunar sorps í Mosfellsbæ:

Bláar tunnur
Á vormánuðum 2012 var tekið upp nýtt fyrirkomulag á sorphirðu í Mosfellsbæ með innleiðingu á blárri pappírstunnu við öll heimili í Mosfellsbæ til viðbótar við gráa sorptunnu fyrir almennt sorp. Í bláu pappírstunnuna skal setja allan pappírsúrgang, dagblöð, tímarit, fernur, eggjabakka, sléttan pappír, skrifstofupappír og bylgjupappa. Árið 2018 var farið að flokka plast sérstaklega og fer það sérflokkað í orkutunnuna. Fyrirhugað er að bæta við fleiri endurvinnsluflokkum í tunnuna. 

 
Víðtækt grenndargámakerfi er í Mosfellsbæ
Í dag eru grenndargámar á fjórum stöðum í bænum, við Langatanga, Bogatanga, Dælustöðvarveg og Háholt, og þar má skila flokkuðum úrgangi í þrjá aðskilda flokka:
 • Grænn gámur sem tekur við plastumbúðum,
 • Dósasöfnunargámur fyrir endurvinnanlegar drykkjarumbúðir.
 • Gler
Útvíkkun og endurskoðun á grenndargámakerfinu er stöðugt í gangi.

Endurvinnslustöð Sorpu
Endurvinnslustöð Sorpu bs. í Mosfellsbæ er staðsett við Blíðubakka og er þar tekið við flokkuðum úrgangi, og er opnunartími rúmur. Mosfellsbær hefur lagt áherslu á að ekki kæmi til lokunar þessarar stöðvar þrátt fyrir verulegan samdrátt í þessum málaflokki.

Nánari upplýsingar um endurvinnslustöð Sorpu í Mosfellsbæ er að finna hér

Mosfellsbær leggur mikla áherslu á náttúrvernd í sveitarfélaginu. Umhverfisnefnd Mosfellsbæjar fer með hlutverk náttúruverndarnefndar. Hlutverk náttúruverndarnefnda er að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um náttúruverndarmál og jafnframt stuðla að náttúruvernd á sínu svæði, m.a. með fræðslu og umfjöllun um framkvæmdir og starfsemi sem líkleg er til þess að hafa áhrif á náttúruna.

Náttúrurverndarnefnd Mosfellsbæjar hefur árlega sótt samráðsfund Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda sveitarfélaga þar sem farið er yfir málefni nefndanna.

Nánari upplýsingar um hlutverk náttúruverndarnefnda má finna í Lögum um náttúruvernd nr. 44/1999.

 Meðal verkefna sem bærinn hefur komið að eru:

 • Verndun náttúruminja í bænum, eins og fossa og áa.
 • Varmárósar voru friðlýstir árið 1980 og friðlýsing var endurskoðuð árið 1987.
 • Úlfarsá og Blikastaðakró, Leiruvogur, Tröllafoss og Varmá eru náttúruminjar á náttúruminjaskrá.
 • Ýmis svæði og staðir sem hafa verndargildi vegna náttúrufars eru afmörkuð sem hverfisverndarsvæði í aðalskipulagi Mosfellsbæjar, en það eru Leiruvogur, Urðir í miðbæ Mosfellsbæjar, Úlfarsá og Blikastaðakró, Kaldakvísl, Suðurá, Varmá, Skammadalslækur og Hólmsá.
 • Lokun ólöglegra akslóða á fellum í bænum í náninni samvinnu við landeigendur.
 • Kortlagning á slóðum í bænum, gönguslóðum, reiðslóðum og akslóðum, í samvinnu við hagsmunaaðila.
 • Flokkun vatnasviða þar sem ástand vatna og áa í landi Mosfellsbæjar var kortlagt.
 • Reglulegt hreinsunarátak meðfram ströndum og ám í bænum.
 • Bættar fráveitutengingar frá íbúðarhúsum og hesthúsahverfi þar sem húsaskólp er nú leitt í gegnum skólpdælustöðvar til hreinsistöðvar í Reykjavík.
 • Hreinsun ofanvatns frá nýrri íbúahverfum með sérstökum hreinsibúnaði. 

Verndum árnar okkar

Ofanvatn eða regnvatn er leitt úr nálægum byggðum út í Varmá en það er eðlileg og nauðsynleg ráðstöfun sem þekkist yfirleitt þar sem ár renna í þéttbýli. Þá er verið að tryggja að vatn úr nágrenninu skili sér í árnar til að þær þorni ekki upp á sumrin.

Þess má geta að síðustu misseri hefur verið gripið til ýmissa ráðstafana vegna fráveitumála. Til dæmis er búið að hanna nýja setþró sem hreinsa á ofanvatn í Reykjahverfi. Ráðgert er að staðsetja setþróna á landskika ofan Reykjamels og Reykjabyggðar.

Haldgóður leiðbeiningarbæklingur um verndun ánna hefur verið útgefinn og má nálgast hann hér.

Ef íbúar verða varir við óvenjulega mengun í Varmá þá er nauðsynlegt að tilkynna hana til Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis.

Þeim tilmælum er beint til íbúa og rekstraraðila í byggð sem liggur að Varmá, þ.e. Reykjabyggð og Álafosskvos, að sýna aðgát þegar kemur að umgengni við ræsi í götum. Óheimilt er að hella skaðlegum efnum í niðurföll og óæskilegt er til dæmis að þvo bíla í húsagötum.